Heiladans 9

heiladans9

„BistroBoy (Frosti Jónsson) hefur verið að semja tónlist undir sterkum áhrifum frá tíunda áratugnum og með sveimkenndum bryggjutakti. Pilturinn hefur verið önnum kafinn undanfarið við að semja og liggja fjölmörg verk eftir hann á hljóðskýssíðu kappans.“

 

Af vef Raftóna:

Heiladans #9

Níunda Heiladanskvöldið mun eiga sér stað fimmtudaginn þann 1. desember næstkomandi. Kvöld þessi einblína á að láta vel að heilabylgjum staðargesta og þurfa gestir kvöldsins lítið annað að gera en að mæta á svæðið og njóta tónanna. Ekki skal rugla heiladansi við höfuðdansi sem vinsæll var í skrykkdanshreyfingunni, en fjöldi ungmenna erlendis átti um sárt að binda vegna meiðsla sem þeir urðu fyrir við að hafa stundað höfuðdans án leiðsagnar kennara. Dæmi voru um að ungmenni hafi verið bundin hjólastólum af þeim sökum. Ennissnúningur var einnig talinn vera afar skaðlegur ólærðum unglingum. Engar hættur leynast þó á Heiladanskvöldum og leiðsögn kennara með öllu óþarfi. Kvöldið mun eiga sér stað í Nýlenduverzlun Hemma og Valda (Laugarvegi 21) og hefjast leikar tímanlega klukkan 21:00 með ölfórn listamannsins Futuregrapher til forseta Möller útgáfunnar, Skurken. Þeir listamenn sem koma fram þetta kvöldið eru Bistroboy, Steindór Kristinsson, Balrock og Amigo.

BistroBoy (Frosti Jónsson) hefur verið að semja tónlist undir sterkum áhrifum frá tíunda áratugnum og með sveimkenndum bryggjutakti. Pilturinn hefur verið önnum kafinn undanfarið við að semja og liggja fjölmörg verk eftir hann á hljóðskýssíðu kappans.

Steindór Kristinsson er annar helmingur rafdúósins Einóma, sem hefur gert það gott í rafheimum síðastliðinn áratug og nýtur mikillar virðingar hjá rafspekingum út um allan heim. Steindór hefur undanfarið verið að vinna sólóefni og sendi nýlega frá sér stuttskífuna Flute Machine á hollensku útgáfunni Shipwreck.

Balrock (Bjarki Hallbergsson) er hljóðmeistari mikill og hefur verið að semja raftónlist í mörg ár. Er landsþekktur sem einn af þremur úr rafpoppbandinu Plugg’d, sem eru á mála hjá útgáfufyrirtækinu Airport Route Records, og hefur sjálfur, ásamt Plugg’d, verið límdur við farsæl Techno.is kvöld hjá Adda Exos. Balrock, eða Bjarki, er einnig meðlimur í tvíeykinu Dusk.

Raftróið Amigo (Dagbjartur, Guðjón Hreiðar, Hreiðar Már) hefur verið að koma saman aftur nýverið, en hljómsveitin hefur legið í pásu á meðan Dagbjartur hefur gælt við Fu Kaisha, Guðjón hefur verið upptekinn við að upplýsa land og þjóð um spillingu heimsins á gagnauga.is og Hreiðar önnum kafinn að afgreiða skinkur og beikon á Kex Hostel. Amigo spilaði frábæra tónleika, m.a. ásamt Biogen heitnum, á Innipúkanum árið 2009 á Jacobsen, þar sem tölvunni hans Dagbjarts var stolið eftir hljómleikana. Fólk sem elskar Madonnu, Keith Flint og Luke Vibert – ættu að mæta í kraftgallanum og stíga nokkur spor með þessari skemmtilegu sveit, sem spilar of sjaldan.